Kynning á Sporleit.
Greinin birtist í 1. tbl Sáms 2010. Höfundur: Anna Francesca Rósudóttir
Hundurinn "sporar" þegar hann tekur sjálfstætt upp lykt, fylgir slóðinni eftir og finnur hluti sem sporleggjarinn hefur lagt út. Viljinn og löngunin hjá hundum til að spora uppi slóð er mis mikil. En einnig er það undir þjálfaranum komið að fá hundinn til að hafa áhuga. Hundur sem sýnir þjálfuninni áhuga er hægt að verðlauna og hvetja áfram með leikfangi eða skál með mat í enda sporsins. Ef hundurinn er mjög áhugasamur um aðrar manneskjur getur stjórnandinn fengið þann sem lagði sporið til að bíða við enda sporsins og leika við hundinn að verkefninu loknu. Stjórnandi hundsins verður að finna það út hvað hentar hans hundi sem verðlaun til hvatningar á næsta spori. Búnaðurinn sem þarfnast til sporaþjálfunar er sporabeisli, sporalína og millihlutir. Sporabeislið þarf að vera þannig að átakið sé rétt á líkama hundsins þegar hann dregur stjórnanda sinn áfram eftir slóðinni. Dæmigerð sporalína er 15 metra löng, létt og vatnsheld. Millihlutirnir eru ferhyrndir; um 12 sm langir og 2 sm þykkir en endahluturinn um 36 sm langur. Hentugt er að vera í fatnaði með stórum vösum svo hægt sé að safna millihlutunum í vasana og einnig að hægt sé að draga upp leikfang að sporinu loknu. Vindátt skiptir miklu máli þegar hundurinn sporar uppi slóð. Í fyrstu skiptin sem hundurinn sporar er gott að hafa vindinn í bakið til að hjálpa honum. Hundur með meiri reynslu og kunnáttu lætur ekki vindátt trufla sig og lærir að vinna með vindáttinni. Í fyrstu er gott að leggja eitt spor, um 100 metra beina slóð. Byrjunarpunktinn er gott að hafa við hliðina á einhverju sem sker sig úr til hjálpar stjórnanda. Búinn er til lyktarpallur með þvi að stappa vel niður fótunum á einn stað og ganga svo áfram. Endapunkturinn á ekki að sjást nema í stuttri fjarlægð. Þegar hundurinn hefur skilið hvert verkefnið er, er hægt að auka við slóðlengdina. Millihlutum er bætt inn þegar hundurinn hefur náð tiltekinni hæfni í að rekja langa slóð með lyktarskini sínu. Hægt er að leggja mislangar slóðir og með mismörgum millihlutum. Millihlutina "markerar" hann með því að láta stjórnanda vita að hann hefur fundið þá. Stjórnandi þarf að ákveða fyrir fram hvernig hann vill að hundurinn sinn "markeri". Hundurinn þarf alltaf að markera hlutina eins. Til dæmis getur hundurinn markerað hlutina með því að skila þeim til eigandans, gelta, leggjast eða standa við hlið hlutsins. Samkvæmt reglum í sporaprófi 1 á hundurinn að spora uppi 300 metra slóð með tveimur 90° beygjum. Tveir millihlutir finnast í slóðinni og einn endahlutur sem hafa verið í snertingu við sporleggjara í að minnsta kosti 30 mínútum áður en sporið er lagt til að bera lykt hans. Sporið á að vera minnst 20 mínútna gamalt en að mestu 50 mínútna gamalt. Hámarkstími sem teymið fær til að vinna sporið eru 15 mínútur. Æskilegt er að hundurinn fari í gegn um sporið á jöfnum hraða og haldi stöðugt áfram að vinna. Línan á milli stjórnanda og hundsins á að vera nokkuð strekt og er því gott fyrir stjórnanda að vera í góðum hönskum svo hendurnar særist ekki undan sporalínunni. Eins og í annarri þjálfun þá er sporaleit góð hreyfing og útivist og styrkir samband milli eiganda og hunds. |
Útbúnaður fyrir sporleitÝmsu þarf að huga að áður en þú hyggst æfa sporleit.
Það skiptir mjög miklu máli að eiga réttan útbúnað, fatnað og græjur. Það fyrsta sem þú þarft að huga að er að eiga gott beisli fyrir hundinn og sporlínu. Beislin eiga að vera þannig hönnuð að ekkert álag verði á háls hundsins og beislið á ekki með nokkru móti að hefta hundinn í að bera höfuðið lágt á meðan hann rekur sporið. Misjafnt er hvort fólk kjósi smellu eða sylgju en mun fljótlegra er að festa beisli á hundinn með smellu heldur en sylgju. Til eru ýmsar gerðir af sporabeislum með eða án endurskins, með eða án fóðrunar og með eða án bringustykkis. Veður er misjafnt og er nauðsynlegt fyrst og fremst að eiga góða gönguskó. Undirlag er misjafnt, hraun, mosi, lúpína, gras, möl, mold og getur verið erfitt að labba hrjóstugt landslag í venjulegum strigaskóm. Einnig þarf að eiga góða sokka. Vindbuxur og regnbuxur er gott að hafa meðferðis því veðrið getur breyst snögglega og er þá leiðinlegt að verða of kalt og jafnvel hætta við að leggja spor. Mikilvægt er að vera rétt klæddur ogklæðnaður sem er góður fyrir gönguferðir. Gott er að vera í yfirhöfn eða vesti með góðum vösum fyrir millihluti, nammi og dót. Nauðsynlegt er að hafa dót til að verðlauna hundinn í endann, nammi þegar æfðar eru markeringar og nóg af hrósi. Gott er að merkja upphafsstað spors fyrir þig til að muna nákvæmlega hvar spor byrjar og er þægilegt að eiga rafmagnsstaur eða svokallaðan randbeitarstaur (1-2 er nóg) til að merkja í upphafi þjálfunar hvar spor byrjar og endar. Sumir nota einnig mislitar þvottaklemmur sem þeir klemma í tré og runna til að vita nákvæmlega hvernig sporið liggur. Þá er hægt að nota misjafnan lit fyrir; beint áfram, beygjur og hluti. Svo þarftu að hafa vatn og vatnsdall meðferðis því spor tekur á hundinn og verður hann þreyttur eftir vinnuna. Tékklisti: -Sporlína -Sporbeisli -Hanskar -Gönguskór og æskilegur klæðnaður (fer eftir veðri) -Vatn og vatnsdallur -Staur til að vita upphafs og endapunkt spors -(Skeiðklukka til tímatöku hversu sporið hefur legið lengi, þvottaklemmur) -Leikfang og nammi. |